Bowen tækni

Hvað er Bowen tækni?

Bowen tækni er tegund meðferðar sem notuð er á líkamann og hvetur hann til sjálfsheilunar. Hún er verkjastillandi og -losandi og endurnýjar orku líkamans. Bowen tækni er þægileg, djúp og afslappandi.

Meðferð með Bowen tækni virðist mjög einföld. Það hve létt meðferðin er, en jafnframt áhrifarík, hefur gert Bowen tæknina mjög vinsæla. Osteopatar, hnykkjarar, hjúkrunarfræðingar og sjúkraþjálfarar eru meðal þeirra mörgu starfsstétta sem nota Bowen tækni.

Bowen tæknir notar þumla og fingur á ákveðna staði á líkamanum og gerir rúllandi hreyfingar með það að markmiði að trufla boðskipti milli heila, vöðva og bandvefs og hafa þannig áhrif á orkuflæði innan líkamans. Meðferðin samanstendur af röð mjúkra hreyfinga sem gerðar eru með þumlum og fingrum yfir vöðva, sinar, liðbönd og húð. Notaður er mjög léttur þrýstingur.

Þrjár meðferðir með viku millibili eru oft nóg til að ná fram varanlegum bata við langvarandi verkjum en þó eru stundum fleiri meðferðir nauðsynlegar.

Til að ná fram hámarksárangri er mælt með að ekki séu aðrar meðferðir teknar samhliða Bowen, svo sem nudd, svæðanudd og þess háttar.

Bowen tækni hentar fólki á öllum aldri. Hún er engum hættuleg og ekkert kemur í veg fyrir að hægt sé að beita henni. Hana má nota í neyðartilvikum og við hvaða aðstæður og við hvaða ástandi sem er. Það góða við Bowen tæknina er hve almennt hún virkar og að henni er hægt að beita á hvern sem er og við hvaða aðstæður sem er. Meðferðin hefur víðtæk áhrif, hvort sem er á vandamál tengd líkamsbyggingunni sjálfri, vöðvatengd vandamál eða margs konar líffæratengd vandamál.

Reynslan hefur sýnt að meðferð með Bowen tækni er hægt að nota af öryggi og án áhættu gegn flestum þekktum vandamálum sem steðja að líkamanum. Nefna má bak- og hálsverki, vandamál í hnjám, íþróttameiðsl, RSI, axlamein, tennisolnboga og öndunarvandamál. Þá hefur meðferðin virkað vel gegn síþreytu, heymæði, höfuðverk, nýrnavandamálum og vandamálum sem tengjast sogæðakerfinu. Þetta er hins vegar ekki tæmandi listi sem skilgreinir hvað Bowen tæknin getur haft áhrif á, aðeins dæmi um vandamál sem reynslan hefur sýnt að eru móttækileg fyrir því sem líkaminn gerir í framhaldi af meðferð með Bowen tækni.

Upphaf og saga Bowen tækninnar

Bowen tækni er aðferð sem Thomas Ambrose Bowen fann upp. Hann fæddist í Ástralíu 1916 og bjó lengst af í Geelong í Viktoríuríki. Hann hætti í skóla 14-15 ára gamall og fór að vinna svo fjölskyldan hefði nóg að bíta og brenna. Eftir að hafa unnið ýmis verkamannastörf sem ungur maður fékk hann mikinn áhuga á nuddi og virkni líkamans. Hann eyddi miklum tíma í að fylgjast með knattspyrnuþjálfurum og öðrum sem störfuðu við íþróttir.

Í starfi sínu í steypuskála einingaverksmiðju tók Tom eftir því að vinnufélagarnir áttu við ýmiss konar álagsmeiðsli að stríða. Hann fór að prófa sig áfram við að hjálpa þeim. Árangurinn varð sá að samverkamönnum hans leið mun betur. Hæfileikar Toms spurðust fljótt út og í kringum 1950 var hann farinn að taka á móti fólki á heimili sínu eftir fullan vinnudag í steypuskálanum og veita því meðferð. Þegar hann kom heim úr vinnu sinni beið venjulega stór hópur fólks fyrir utan heimili hans eftir því að fá hjálp gegn kvillum sínum.

Í nokkur ár hjálpaði hann fólki eftir venjulegan vinnudag og var þá að langt fram á kvöld. Að lokum hafði skjólstæðingum hans fjölgað svo mikið að hann varð að velja á milli vinnu sinnar í verksmiðjunni og að hjálpa fólki. Valið var auðvelt.

Tom opnaði stofu og gerði það að fullu starfi að hjálpa fólki. Annan hvern laugardag vann hann með fötluðum börnum endurgjaldslaust til þess að bæta líðan þeirra og líf. Sem forfallinn íþróttaáhugamaður hafði hann alltaf opið fyrir íþróttamenn bæjarins á leikdögum til þess að hjálpa þeim þegar þeir meiddust.

Um 1960 var sú meðferð sem Tom Bowen veitti orðin sú vinsælasta í Ástralíu. Hann meðhöndlaði yfir 13 þúsund skjólstæðinga á ári með aðferð sinni.

Bowen tæknin barst til Englands árið 1993 og er nú að verða vinsælasta grein óhefðbundinna lækninga þar í landi. Í dag er þessi aðferð notuð á hinum ýmsu stofnunum og endurhæfingardeildum sjúkrahúsa í Bretlandi og víðar um heim. Íþróttafélög hafa ráðið til sín Bowen tækna til þess að flýta fyrir bata hjá meiddum leikmönnum og til að nota sem fyrirbyggjandi meðferð gegn meiðslum, með mjög góðum árangri. Sjúkraþjálfarar, læknar og fleiri hafa tekið upp aðferðir Bowens til þess að ná sem bestum árangri í meðferð skjólstæðinga sinna.

Nám í notkun Bowen tækninnar

Námskeið ECBS (European College of Bowen Studies í London) í Bowen tækni eru þau virtustu í heiminum í dag. ECBS er eini einkaskólinn sem er viðurkenndur af Federation of Holistic Therapist, stærstu samtökum meðferðarfólks í Bretlandi. ECBS er aðili að BCMA, British Complementary Medicine Association, og er uppbygging hans viðurkennd af BTER, Bowen Therapists’ European Register, einu sjálfstæðu Bowentækni samtökunum í Evrópu.

Í byrjun var eingöngu kennt á Bretlandseyjum en frá 1999 hefur skólinn meðal annars verið að kenna í Hollandi, Svíþjóð, Spáni, Suður-Afríku og Íslandi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s